Spurt og svarað

Mömmum líður ekki alltaf vel og það þarf ekki að þýða að þær séu þunglyndar. Þegar kona gengur með barn hefst ferli sem snýr lífi hennar á hvolf. Líkami hennar umbreytist á ógnarhraða um leið og hún tekst á við að ganga með, fæða, læra á, vaka yfir, hugga, kynnast, leika við og elska ókunna mannveru sem brýtur upp allar venjur hennar. Nýbakaðar mömmur eru oft úrvinda af þreytu og á valdi hormóna sem sveifla þeim upp og niður í tilfinningalegum rússíbana um leið og þær takast á við ruglingslega blöndu af mótsagnakenndum hugsunum og tilfinningum. Þess vegna er eðlilegt að mömmum líði oft illa. Oft geta hennar nánustu hjálpað með því að létta af henni daglegu amstri og sýna henni umhyggju og alúð.

Einkenni þunglyndis eru í eðli sínu þau sömu og einkenni depurðar nema þau eru alvarlegri og langvinnari og hafa þannig víðtæk áhrif á daglegt líf viðkomandi. Því fylgja ekki aðeins breytingar á líðan, heldur einnig á hugsunum. Ef manni sjálfum líður mjög illa er erfitt að hugsa um lítið barn og stundum reynist ógerlegt að veita því þá umönnun sem það þarfnast. Þess vegna er mikilvægt að leita sér hjálpar til að greina á milli eðlilegrar depurðar og þunglyndis og fá viðeigandi hjálp.

Umönnun barns er samvinnuverkefni foreldra. Hins vegar hefur móðirin nokkra sérstöðu fyrstu mánuðina sem gefur henni ákveðið forskot. Vegna þess að hún gengur með barnið er hún oft tengd því sterkum tilfinningaböndum og barnið þekkir hana betur en aðra þegar það fæðist, það þekkir til dæmis lykt hennar, rödd og hjartslátt. Að öðru leyti eru feður, fósturforeldrar, afar og ömmur ekki síður hæfir til að sinna hlutverki móðurinnar. Aðalatriðið er að manneskjan gefi sig að barninu af heilum hug og stilli sig inn á þarfir þess. Þó svo að hlutverk mömmu og pabba séu ólík til að byrja með geta þau með tímanum æ meira komið hvort í annars stað. Þau eru barninu bæði mikilvæg en ólíkar manneskjur og þess vegna myndar barnið ólík tengsl við þau.

Tengsl barns við foreldra eru sprottin af eðlislægri hvöt til að bindast lífveru sem veitir því öryggi, umönnun og vernd. Fyrstu tengsl barns af þessum toga eru oftast við móðurina en síðar koma aðrir til skjalanna, svo sem faðirinn og þeir sem annast það mest. Örugg tengsl lýsa sér með því að barnið þráir að vera hjá móður sinni og kýs hana umfram aðra, finnur til öryggis í nálægð hennar en óöryggis við aðskilnað frá henni.

Á þessum tíma er heili barna í mótun en þroski hans er háður reynslu þeirra og aðstæðum. Því hefur umönnun og umhverfi ungra barna veruleg áhrif á andlegt og líkamlegt heilsufar þeirra fram á fullorðinsár. Langtímamarkmið er að sinna fjölskyldum með börn að fimm ára aldri.

Miðstöðin er einkum ætluð foreldrum sem eiga í geðheilsu- og/eða tengslavanda við ung börn sín. Ástæður þess geta verið margvíslegar, svo sem þunglyndi eftir fæðingu eða annar geðheilsuvandi, áföll eða erfið reynsla foreldra úr barnæsku eða að þeir njóti lítils stuðnings fjölskyldu. Foreldrar geta einnig leitað til miðstöðvarinnar ef þeim finnst barnið sitt sýna lítil viðbrögð, gráta mikið eða eiga erfitt með að nærast eða hvílast. Fagfólk getur vísað til miðstöðvarinnar en foreldrar geta líka haft samband milliliðalaust.

Miðstöð foreldra og barna sérhæfir sig í meðferð fyrir verðandi foreldra og með börn að eins árs aldri. Meðferðin byggir á kenningum sálgreiningar, tengslakenningu og rannsóknum í taugavísindum. Auk þess er stuðst við hugræna atferlismeðferð, djúpslökun og í völdum tilvikum er boðið upp á heimavitjanir. Áherslan beinist að tengslunum á milli foreldra og barns og því taka þau öll þátt í meðferðartímunum ef kostur er, annars annað foreldranna. Markmið meðferðar er að efla getu foreldra til að mynda tengsl við börn sín og styrkja þá í foreldrahlutverkinu á viðkvæmustu mótunarárum barnanna.