Þegar barn fæðist er heili þess afar vanþroskaður og taugabrautir ómótaðar. Það er samt ekki nóg að bíða eftir að heilinn þroskist því það gerist ekki af sjálfu sér. Hvernig hann þroskast er háð aðstæðum og reynslu hvers og eins og hann er aldrei jafn auðmótanlegur og fyrstu mánuði og ár ævinnar. Jákvæð samskipti og vellíðan stuðla að tengingum á milli taugafruma í þeim hluta heilans sem sér um getu barnsins til sjálfstjórnar og flókinna félagslegra samskipta þegar fram líða stundir. Aftur á móti getur skaðleg streita, t.d. vegna ónærgætinnar umönnunar eða aðskilnaðar frá þeirra nánustu, veikt tengingar á milli taugabrauta, dregið úr vexti heilans og veikt ónæmiskerfið.

Vegna þess að ungt barn getur ekki sjálft stjórnað líðan sinni verða foreldrar eða aðrir sem þekkja það vel að grípa inn í til að hamla streitu þess. Við það eitt að barn sé huggað eða dregið sé úr kvíða þess er streitu þess haldið innan viðráðanlegra marka og stutt er við viðkvæmt ónæmiskerfið. Á sama tíma er vöxtur örvaður í þeim hluta heilans sem hugsar um tilfinningar, hefur taumhald á hvötum og ræður færni í félagslegum samskiptum. Ef þörfum barns er ekki sinnt getur orðið röskun á líffræðilegum og sálrænum viðbrögðum sem geta haft áhrif til lengri jafnt sem skemmri tíma. Fái ung börn ekki áreiðanlega svörun er hætt við að sjálfsmynd þeirra verði neikvæð, þau læri ekki að þekkja tilfinningar sínar, þrói ekki með sér hæfileika til að setja sig í spor annarra og virði þar af leiðandi hvorki reglur né mörk samfélagsins.

En geta ekki aðrir en foreldrar brugðist nægilega vel við barni? Jú að sjálfsögðu. En ástæða þess að foreldrarnir eru að öllu jöfnu best til þess fallnir fyrstu mánuði og ár er að þeir þekkja barnið sitt betur en nokkur annar. Þess vegna eru þeir best til þess fallnir að draga úr streitu barnsins og veita því mesta öryggiskennd.

Hér að neðan ber að líta mjög fræðandi myndskeið á vegum Harvard Háskóla í Bandaríkjunum um efnið. Undir myndskeiðunum er slóðin inn á síðu Harvard þar sem nánar er farið yfir efni myndskeiðanna.